Fréttir | 23. október 2018 - kl. 18:33
Fagnar frumkvæði íbúa við Vatnsnesveg

Byggðarráð Húnaþings vestra fagnar frumkvæði íbúa við veg 711, Vatnsnes og Vesturhóp, að halda íbúafund og skora á sveitarstjórn Húnaþings vestra að þrýsta á stjórnvöld um vegaúrbætur. Byggðarráð tekur heils hugar undir ályktun fundarins og athugasemdir og áhyggjur íbúa varðandi ástand Vatnsnesvegar. Ráðið ætlar að leita allra leiða til að þrýsta á stjórnvöld að koma veginum í ásættanlegt ástand.  

Íbúar á Vatnsnesi héldu fjölmennan íbúafund 10. október síðastliðinn á Hótel Hvítserk í Vesturhópi vegna ástands vegarins en þeir eru orðnir langþreyttir á orðagjálfri ráðamanna sem virðist halda ákaflega fast við budduna og hlusta ekki á fólkið á svæðinu, eins og segir í ályktun fundarins. Hámarkshraði vegarins hefur á kafla verið færður niður í 30 kílómetra hraða á klukkustund vegna lélegs ástands og sýnir það í raun hversu alvarlegt ástandið er orðið.

Sjá nánar frétt um íbúafundinum hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga