Frá sláturtíðinni í fyrra í sláturhúsi SAH Afurða. Ljósm: sahun.is.
Frá sláturtíðinni í fyrra í sláturhúsi SAH Afurða. Ljósm: sahun.is.
Fréttir | 12. nóvember 2018 - kl. 14:38
Sauðfjárslátrun lokið

Alls var um 285 þúsund kindum slátrað á Norðurlandi vestra í haust en sauðfjárslátrun lauk í flestum sláturhúsum um síðustu mánaðamót. Er það ríflega helmingur alls þess sem slátrað hefur verið á öllu landinu í haust. Þrjú sláturhús eru á Norðurlandi vestra; Sauðárkróki, Blönduósi og Hvammstanga. Flestum kindum var slátrað hjá Kaupfélagi Skagfirðinga á Sauðárkróki eða 99.174. Í Sláturhúsi KVH á Hvammstanga var 93.633 kindum slátrað og hjá SAH Afurðum á Blönduósi var 92.043 kindum slátrað.

Fallþungi dilka var góður og meiri en í fyrra. Mestur var hann hjá Sláturhúsi KVH eða 16,80 kíló, næst mest hjá SAH Afurðum eða 16,69 kíló og hjá Kaupfélagi Skagfirðinga var hann 16,68 kíló. Að meðaltali vigtuðu lömbin sem slátrað var á landinu í haust 16,56 kíló. Samdráttur var hjá öllum sláturleyfishöfum en mismikill. Fjallað er ítarlega um sauðfjárslátrun haustið 2018 í Morgunblaðinu í dag, þaðan sem ofangreindar upplýsingar eru fengnar. 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga