Fréttir | 23. janúar 2019 - kl. 16:51
SAH Afurðir greiða bændum uppbætur

Stjórn SAH Afurða á Blönduósi hefur ákveðið að greiða bændum 12% álag á áður auglýst verð fyrir dilkakjöt í síðustu sláturtíð. Eiður Gunnlaugsson, stjórnarformaður Kjarnafæðis, eiganda SAH Afurða, segir á vef fyrirtækisins, að afar ánægjulegt sé að SAH Afurðir hafi rétt svo mikið úr kútnum, eftir mjög erfið ár, að mögulegt sé að hækka greiðslur til bænda. Álagið verður greitt 8. febrúar næstkomandi.

Kjarnafæði eignaðist SAH Afurðir að fullu í loks árs 2015, en hafði í nokkur ár átt um 40% í félaginu. „Þegar við tókum fyrirtækið yfir var það varla rekstrarhæft – nánast að hruni komið. Margir bændur áttu þá háar fjárhæðir inni hjá félaginu og segja má að hvert áfallið hafi rekið annað 2015 og 2016; kjötverð lækkaði á markaði, gærur og aðrar aukaafurðir voru nánast óseljanlegar og krónan styrktist. Það féll ekkert með okkur,“ segir Eiður.

„Vegna alls þessa urðum við að taka erfiðar ákvarðanir, meðal annars að greiða lægra afurðaverð en við hefðum kosið, en þau skref voru stigin til þess að verja hagsmuni bænda til lengri tíma litið, og til þess að tryggja okkur aðgang að hráefni. Þetta voru sársaukafullar aðgerðir en því miður nauðsynlegar. Með mikilli vinnu starfsmanna og viðskiptabanka okkar, Íslandsbanka, tókst að afstýra því að félagið færi í þrot. Reksturinn lagaðist mikið árið 2017 og eftir síðasta ár er viðsnúningurinn orðinn það mikill að við getum sem betur fer greitt bændum álag á innleggið frá því í haust. Með þessu er ég ekki að segja að reksturinn sé kominn á einhverja beina braut, hann er ennþá brothættur og eigið fé félagsins er enn neikvætt. En mikil breyting hefur orðið til batnaðar.“

Eiður segir að leitað hafi verið til Byggðastofnunar á sínum tíma, þegar hætta var á að SAH færi hreinlega í þrot. „Við lögðum mikla vinna í að fá aðstoð, en þar á bæ var ekki áhugi fyrir því. Okkur var tjáð að eins væri hægt að henda peningunum út um gluggann eins og að lána okkur. Íslandsbanki hefur hins vegar alltaf staðið með okkur eins og klettur og fyrir það ég er mjög þakklátur,“ segir Eiður.

Hann kveðst einnig, og ekki síður, mjög þakklátur bændum fyrir trygglyndi þeirra. „Þeir hafa staðið með okkur á erfiðum tímum síðustu misseri og sýnt aðdáunarverða samstöðu á meðan við gátum ekki greitt þeim það verð fyrir afurðir sem við hefðum sannarlega viljað. Þess vegna er einstaklega ánægjulegt að fyrirtækið sé nú komið í þá stöðu að geta loks hækkað greiðslur til bænda,“ segir Eiður Gunnlaugsson á vef SAH Afurða.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga