Fréttir | 25. mars 2019 - kl. 22:11
Kynning á Styrktarsjóði Austur-Húnvetninga
Tilkynning frá stjórn

Styrktarsjóður Húnvetninga hefur verið starfræktur frá árinu 1974 og hefur markmið hans frá upphafi verið að veita héraðsbúum aðstoð þegar óvænta erfiðleika ber að höndum. Þó fyrst og fremst sem hjálp í erfiðum sjúkdómstilfellum, þar sem ekki er veitt næg aðstoð af hálfu opinberra aðila og fjárframlög til kaupa á lækningatækjum eða öðrum þeim tækjum eða aðstöðu, sem skapar bætta sjúkrahjálp og heilsugæslu í hérðainu, eins og segir í reglum sjóðsins.

„Heimilar eru þó framkvæmdastjórn sjóðsins styrkveitingar, til annars en að framan greinir enda sé hún öll sammála þar um“ kemur jafnframt fram í reglum sjóðsins.

Stofnfélagar sjóðsins voru eftirtalin félög: Hjálpasveit skáta Blönduósi, Iðnaðarmannafélag Austur Húnavatnssýslu, Björgunarsveitin Blanda, Leikfélag Blönduóss, Kvenfélagið Vaka, Karlakórinn Vökumenn, Lionsklúbbur Blönduóss og Ungmennafélagið Hvöt.

Í dag eru aðildarfélögin 7 talsins, þ.e. Björgunarfélagið Blanda, Stéttarfélagið Samstaða, Leikfélag Blönduóss, Kvenfélagið Vaka, Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps, Lionsklúbbur Blönduóss og Ungmennafélagið Hvöt.

Á aðalfundi félagsins sem haldinn var 1. nóvember sl. var samþykkt að breyta nafni sjóðsins í Styrktarsjóður Austur-Húnvetninga. Þá var kosin ný stjórn en hana skipa þau: Auðunn Steinn Sigurðsson fyrir Björgunarfélagið Blöndu, Helga Sólveig Jóhannesdóttir fyrir Kvenfélagið Vöku og Erla Ísafold Sigurðardóttir fyrir Leikfélag Blönduóss.

Þeir sem vilja fræðast nánar um Styrktarsjóð Austur-Húnvetninga er bent á að setja sig í samband við stjórn sjóðsins.

Höf. ass

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga