Þorleifur Karl
Þorleifur Karl
Fréttir | 06. desember 2019 - kl. 11:09
Mikið byggt á Hvammstanga og íbúar bjartsýnir

„Þetta er aðallega ungt fólk sem er að koma til baka, flytja heim,“ segir Þorleifur Karl Eggertsson oddviti sveitarstjórnar Húnaþings vestra og stjórnarformaður Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Hann var gestur Karls Eskils Pálssonar í Landsbyggðum á sjónvarpsstöðinni N4.

Íbúum sveitarfélagsins hefur fjölgað umtalsvert og er verið að byggja hátt í þrjátíu íbúðir á Hvammstanga. „Það hefur ekki verið byggt svona mikið í mörg ár á Hvammstanga. Hérna eru innviðir traustir en húsnæðisskortur hefur háð okkur nokkuð á undanförnum árum. Þetta er fjölskylduvænt samfélag, menningin blómstrar og íþróttastarf er öflugt, svo ég nefni dæmi. Stærsta verkefni sveitarfélagsins á næsta ári er stækkun grunnskólans sem segir sína sögu um uppbygginguna.“

Þorleifur Karl segir að markvisst þurfi að markaðssetja Norðurland vestra sem vænlegan búsetukost, einnig þurfi að nýta ýmis sóknartækifæri í atvinnumálum, svo sem í landbúnaði og fullvinnslu afurða.

„Norðurland vestra er mikið landbúnaðarhérað og sjávarútvegur er sterkur. Jarðhiti er mikill hérna og þessa auðlind þarf að nýta eins og kostur er. Norðurland vestra er eitt atvinnusvæði og uppbygging kemur öllum íbúum svæðisins til góða. Í ferðaþjónustu eru fjölmörg tækifæri og jarðvarmi er víða, sem hægt er að nýta.“

Sjá má þáttinn á N4 hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga