Frá Blönduósi. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson.
Frá Blönduósi. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson.
Fréttir | 09. desember 2019 - kl. 09:25
Karen og Baltasar vinsælustu nöfnin síðustu ár

Flestir karlar á Íslandi heita Jón, Guðmundur eða Sigurður en algengustu nöfn kvenna eru Guðrún, Anna eða Kristín. Líklegast er að stúlkur sem fæddust árin 2016-2019 heiti Íris, Embla eða Salka ef þær eru fæddar á Austurlandi; Sara, Bríet eða Emelía á Norðurlandi eystra; Karen á Norðurlandi vestra, Emma á Vestfjörðum, Emilía á Vesturlandi, Hanna á Suðurnesjum, Sara á höfuðborgarsvæðinu og Elísabet eða Saga ef þær eru fæddar á Suðurlandi. Mestar líkur eru á að drengir sem fæddust árin 2016-2019 heiti Aron ef þeir eiga uppruna sinn að rekja til höfuðborgarsvæðisins, Alexander ef þeir eru frá Suðurnesjum eða Austurlandi, Haukur ef þeir eru frá Vestfjörðum, Baltasar á Norðurlandi vestra og Sigurður á Suðurlandi.

Sagt er frá þessu á vef Hagstofu Íslands þar sem fjallað er um algengustu nöfn þeirra sem fæddust árið 2018. Aron var vinsælasta eiginnafn nýfæddra drengja á árinu 2018 en þar á eftir Alexander og Emil. Emilía var vinsælasta stúlkunafnið, þá Embla og svo Ísabella. Þór var langvinsælasta annað eiginnafnið hjá drengjum, en þar á eftir Hrafn og Freyr. María var vinsælasta annað eiginnafn stúlkna en þá Rós og svo Sif.

Sjá nánar á vef Hagstofu Íslands.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga