Blönduós. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson.
Blönduós. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson.
Tilkynningar | 03. janúar 2020 - kl. 09:39
Fundur í Hnitbjörgum 15. janúar
Frá Sögufélaginu Húnvetningi

Sögufélagið stendur fyrir fundi í sal FEB í Hnitbjörgum miðvikudaginn 15. janúar klukkan 14. Þar verða þrír fyrirlesarar:

  1. Jóhannes Torfason tínir úr kýrhausnum fróðleiksmola frá árum Þorsteins Matthíassonar skólastjóra á Blönduósi, en á þeim árum hófst einnig útgáfa ársritsins Húnavöku sem telur brátt 60 árganga.
  2. Jóhanna Erla Pálmadóttir fjallar um frænda sinn Jón Kaldal ljósmyndara og systkini hans.
  3. Jón Björnsson, sögumaður af vatns- og langdælskum bænda-, sýslumanns- og prestaættum, hefur tekið saman og flytur fyrirlesturinn Afi á Húnsstöðum.
  4. Kaffiveitingar

Sögufélagið Húnvetningur stendur fyrir þessum fundi í samstarfi við FEB í A-Hún. en í vor verða 82 ár síðan félagið var stofnað.

Á fyrstu áratugum félagsins kom út bókaflokkurinn Svipir og sagnir í fimm bindum. Annað stórvirki sem skreytir sögu félagsins er útgáfa á Ættum Austur-Húnvetninga í fjórum bindum, en þá stýrði Elínborg Jónsdóttir kennari á Skagaströnd félaginu. Útgáfa á söguritinu Húnaþing –í þrem bindum – var verkefni félagsins í samstarfi við fleiri félagasamtök í allri sýslunni. Fleiri rit, Brandsstaðaannáll og Saga búnaðarfélaganna í Svínavatns- og Bólstaðarhlíðarhreppum voru einnig gefin út á fyrstu árum Sögufélagsins. Samstarf við Húnvetningafélagið í Reykjavík hefur alla tíð verið náið og útgáfumál félagsins hafa oft verið nátengd því starfi.

Síðustu tíu ár hefur félagið haldið árlega fundi, aðalfund að vori og stundum svona 1-2 að auki og fengið til þeirra fyrirlesara einn eða fleiri. Síðustu árin hefur félagið tekið þátt í fundaröð í Húnabúð ásamt félaginu í Reykavík og var hákarlinn þema síðastliðinn vetur. Það val var mest tilkomið vegna áhuga félaganna á að leggja lið Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna á Reykjum þar sem hákarlaskipið Ófeigur norðan úr Ófeigsfirði er varðveitt.

Meira til fróðleiks:

Jón Kaldal í wikipedíu: https://is.wikipedia.org/wiki/J%C3%B3n_Kaldal?fbclid=IwAR0PEVHat-qYm8jnjr6i3g6JfGKU1uaLKj5H-w3FSYEER2HqYNFmIFdizdM

Sögukorn um Jón Leifs og fleiri Jóna: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=16226 Byggðasafnið: http://reykjasafn.is/

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga