Bjarni og Stefán Vagn. Ljósm: althingi.is /samsett mynd.
Bjarni og Stefán Vagn. Ljósm: althingi.is /samsett mynd.
Fréttir | 29. janúar 2020 - kl. 16:49
Ỏveðrið undirstrikaði mikilvægi flugvalla á Norðurlandi vestra

Bjarni Jónsson og Stefán Vagn Stefánsson, varaþingmenn Norðvesturkjördæmis, gerðu mikilvægi sjúkraflugs í landshlutanum að umtalsvefni undir fundarliðnum störf þingsins á Alþingi síðdegis. Bjarni, sem er varaþingmaður Vinstri grænna, gagnrýndi að ekki væri skýrt hvernig umsjón með viðhaldi Blönduósflugvallar sé háttað. Stefán Vagn, sem er varaþingmaður Framsóknarflokksins, tók undir það og sagði Alexanderflugvöll á Sauðárkróki mikilvægan.

Bjarni sagðist í ræðu sinni vilja ræða stöðuna á Blönduósflugvelli í ljósi þess að það héraðið hafi á undanförnum vikum lokast af í jafnvel fleiri daga, bæði norður og suður fyrir, og hafi þurft að treysta á sjúkraflug. Það hafi orðið alvarleg slys og hópslys hafi orðið fyrir skemmstu. „En það er mjög alvarleg staða að ekki sé búið betur að búnaði á Blönduósflugvelli. Það vantar að halda búnaði við, meira að segja að stilla aðflugsljós sem kostar ekki stórar upphæðir. Það vantar GPS-kerfi. Það fara 700.000 bílar þarna um á ári. Síðan þegar málið er tekið upp vísar hver á annan,“ sagði Bjarni í ræðu sinni.

Stefán Vagn tók undir orð Bjarna og sagði að sjúkrahúsþjónusta á Norðurlandi vestra og víðar á landsbyggðinni hafa verið flutt í stærri sjúkrahúsin á Akureyri og á höfuðborgarsvæðinu og íbúarnir háðari sjúkraflugi en áður. „Hér er um mikið öryggis- og byggðamál að ræða fyrir íbúa Norðurlands vestra og mikilvægt fyrir stjórnvöld að hlusta á raddir íbúa og sveitarstjórnar í þessu mikilvæga máli,“ sagðir Stefán Vagn í ræðu sinni á Alþingi í dag.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga