HVE Hvammstanga. Ljósm. rikiseignir.is
HVE Hvammstanga. Ljósm. rikiseignir.is
Fréttir | 30. janúar 2020 - kl. 07:45
Færanleg rafstöð sett við HVE á Hvammstanga

Rafmagnslaust var í 40 klukkustundir hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hvammstanga í óveðrinu sem gekk yfir landið 10. og 11. desember síðastliðinn, að því er fram kemur í svari Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Reykjavíkurkjördæmis norður, um varaafl heilbrigðisstofnana. Segir í svarinu að áhrif óveðursins hjá stofnuninni hafi verið mest á Hvammstanga. Fjarskipta- og símasamband hafi gengið erfiðlega og mikil ófærð var á svæðinu.

Engin vararafstöð var á starfsstöð heilbrigðisstofnunarinnar á Hvammstanga sem skapaði mikið óöryggi varðandi alla þjónustu þegar veðrið gekk yfir. Að loknu óveðrinu sendi RARIK færanlega rafstöð til Hvammstanga sem nú er staðsett við stofnunina og ráðgert er að tengja við hana komi til þess að rafmagnið fari af um lengri tíma, að því er segir í svari ráðherrans.

Þá segir í svarinu að á Blönduósi, í Skagafirði, á Húsavík og í Fjallabyggð séu varaaflsstöðvar sem tóku við þegar rafmagn fór af.

Lesa má svar ráðherrans við fyrirspurn þingmannsins hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga