Skemmtilega nefndin
Skemmtilega nefndin
Fréttir | 30. janúar 2020 - kl. 11:18
Uppselt á Blöndublótið á laugardaginn

Undirbúningur fyrir Blöndublótið stendur nú sem hæst og gekk miðasala frábærlega en um 250-260 miðar seldust og er uppselt. Afhending miða fer fram í dag milli klukkan 16:30-18:00 í Félagsheimilinu á Blönduósi. Skemmtilega nefndin, sem sér um skemmtiatriðin á þorrablótinu, hefur farið hamförum á æfingum í vikunni. Myndir þaðan hafa lekið á netið og samkvæmt heimildum Húnahornsins verður víða komið við í annáli ársins 2019. Fær sameiningarnefndin hugsanlega aðstoð að handan? Borðar lögreglan seli? Býður Valli upp á kótelettur í kúlunni? Er hlerunarbúnaður við hringborðið á N1? Svör við þessum spurningum gætu fengist á Blöndublótinu á laugardaginn. Þá verður jólahlaðborðið, sem haldið var í Félagsheimilinu, gert upp.

Húsið opnar klukkan 19:30 og borðhald hefst stundvíslega hálftíma síðar. Veitingar eru í höndum Hafa gaman og hljómsveitin SWIZZ sér um undirspil í fjöldasöng ásamt því að halda uppi fjöri fram á rauða nótt.

Eins og venja er verður tilkynnt á þorrablótinu um val á manni ársins í Austur-Húnavatnssýslu 2019 að mati lesenda Húnahornsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga