Björgunarsveitarfólki var vel fagnað á Blöndublóti í kvöld. Ljósm: Arnar Þór Sævarsson
Björgunarsveitarfólki var vel fagnað á Blöndublóti í kvöld. Ljósm: Arnar Þór Sævarsson
Fréttir | 01. febrúar 2020 - kl. 23:28
Björgunarsveitarfólk eru menn ársins 2019 í Austur-Húnavatnssýslu

Lesendur Húnahornsins hafa valið björgunarsveitarfólk í Björgunarfélaginu Blöndu sem menn ársins í Austur-Húnavatnssýslu árið 2019. Björgunarfélagið stóð í ströngu í síðasta mánuði þegar mikið óveður gekk yfir landið. Félagsmenn lögðu mikið á sig við erfiðar aðstæður við að aðstoða og tryggja öryggi íbúa í óveðrinu og að aðstoða fyrirtæki og stofnanir í héraðinu. Eins og venja er var tilkynnt um niðurstöðuna í valinu á Blöndublóti, þorrablóti Blönduósinga, í kvöld og þar tók Hjálmar Björn Guðmundsson, formaður björgunarfélagsins, við viðurkenningarskildi og gjöf frá Húnahorninu. Gjöfin er 100.000 króna styrkur til félagsins.

Allir sem sendu inn tilnefningu er þökkuð þátttakan en hún var mjög góð að þessu sinni. Fjölmargir fengu verðskuldaða tilnefningu en langflestar féllu þær Björgunarfélaginu Blöndu í skaut.

Þetta er í 15. sinn sem lesendur Húnahornsins velja mann ársins í Austur-Húnavatnssýslu.

Menn ársins síðustu ár eru þessir:

2019: Björgunarsveitarfólk úr Björgunarfélagið Blöndu
2018: Guðjón Ragnarsson og hundurinn Tinni
2017: Eyþór Franzson Wechner
2016: Skarphéðinn Húnfjörð Einarsson
2015: Róbert Daníel Jónsson
2014: Brynhildur Erla Jakobsdóttir
2013: Elín Ósk Gísladóttir
2012: Kári Kárason og Pétur Arnar Kárason
2011: Einar Óli Fossdal
2010: Bóthildur Halldórsdóttir
2009: Bóthildur Halldórsdóttir
2008: Lárus Ægir Guðmundsson
2007: Rúnar Þór Njálsson
2006: Lárus B. Jónsson
2005: Lárus B. Jónsson

Húnahornið óskar björgunarsveitarfólki í Björgunarfélaginu Blöndu til hamingju með útnefninguna.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga