Fréttir | 04. febrúar 2020 - kl. 10:45
Húnavatnshreppur samþykkir kaup BAH á fasteigna að Efstubraut 2

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps hefur samþykkt fyrir sitt leyti kaup Brunavarna Austur-Húnvetninga (BAH) á fasteign undir starfsemina að Efstubraut 2 á Blönduósi. Jafnframt hefur sveitarstjórnin samþykkt að veita einfalda ábyrgð á lántöku BAH hjá Lánasjóði sveitarfélaga vegna kaupanna. Áður hafði sveitarstjórn frestað afgreiðslu þessara mála þar sem hún taldi að stjórn BAH væri ekki rétt kjörin samkvæmt samþykktum Byggðasamlags um brunavarnir í Austur-Húnavatnssýslu.

Í fundargerð sveitarstjórnar Húnavatnshrepps frá 28. janúar síðastliðnum er forsvarsmönnum Blönduósbæjar færðar þakkir fyrir skjót viðbrögð við ábendingum um vanhæfi stjórnarmanna Blönduósbæjar í Byggðasamlagi um Brunavarnir í A-Hún. en Blönduósbær skipaði nýja stjórnarmenn í stjórnina 24. janúar síðastliðinn, eftir ábendingu frá Húnavatnshreppi.

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps telur engu að síður nauðsynlegt að gera breytingar á samþykktum byggðasamlagsins þar sem m.a. verði kveðið á um framkvæmdastjóra. „Í dag eru engin ákvæði um framkvæmdastjóra í samþykktum þess og því röng stjórnsýsla að sveitarstjóri Blönduósbæjar titli sig sem framkvæmdastjóra Byggðasamlagsins og vinni fyrir það sem líkur,“ segir í fundargerðinni.

Á meðan unnið er eftir óbreyttum samþykktum telur sveitarstjórn eðlilegt að sveitarstjóri Húnavatnshrepps sitji stjórnarfundi BAH.

Tengdar fréttir:

Nýir stjórnarmenn skipaðir í stjórn Byggðasamlags um brunavarnir í A-Hún.

Húnavatnshreppur frestaði afgreiðslu á kauptilboði Brunavarna A-Hún.

Brunavarnir A-Hún. í nýtt húsnæði

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga