Frá undirritun samkomulagsins. Ljósm: hsn.is
Frá undirritun samkomulagsins. Ljósm: hsn.is
Fréttir | 05. febrúar 2020 - kl. 16:44
Samkomulag um vettvangslið á Skagaströnd

Heilbrigðisstofnun Norðurlands og Björgunarsveitin Strönd hafa gengið frá samkomulagi um uppsetningu vettvangsliðs á Skagaströnd. Samkomulagið gengur út á samstarf um þjálfun og tækjabúnað vettvangsliðs á vegum björgunarsveitarinnar. Sagt er frá þessu á vef Heilbrigðisstofnunar Norðurlands.

Heilbrigðisstofnunin mun kosta menntun og þjálfun vettvangsliða og á næstu vikum fer tíu manna hópur frá Skagaströnd í vettvangsliðanám á vegum Sjúkraflutningaskólans. Heilbrigðisstofnun Norðurlands veitir síðan vettvangsliðum endurmenntun eftir þörfum og leggur einnig til nauðsynlegan tækjabúnað til viðbótar þeim búnaði sem er í eigu björgunarsveitarinnar. Á vef HSN segir að almenn ánægja sé innan björgunarsveitarinnar með þetta samkomulag.

Hlutverk vettvangsliða er hugsað þannig að vettvangsliði geti verið sá sem fyrstur er á vettvang og verði fær um að veita fyrstu bráðaþjónustu áður en sjúkraflutningamenn koma á staðinn og frekari læknisaðstoð berst. Markmiðið er að svæðið verði betur í stakk búið til að bregðast við í neyð og þannig styrkt heilbrigðisþjónustu svæðisins.

„Í ljósi undangenginna áfalla tengdum illviðri er vert að fagna þessum samningi sem styrkja mun bæði Björgunarsveitina Strönd og heilbrigðisþjónustuna á staðnum íbúunum til heilla,“ segir á vef HSN.

Á meðfylgjandi mynd sem fengin er af vef HSN eru f.v.: Einar Óli Fossdal forstöðumaður sjúkraflutninga HSN á Blönduósi, Örn Ragnarsson framkvæmdastjóri lækninga á HSN, Jón Helgi Björnsson forstjóri HSN, Reynir Lýðsson formaður björgunarsveitarinnar Strandar og Alexandra Jóhannesdóttir sveitarstjóri Skagastrandar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga