Ljósm: stjornarradid.is
Ljósm: stjornarradid.is
Fréttir | 28. febrúar 2020 - kl. 12:35
Úrbótum í innviðum flýtt um áratug

Jarðstrengjavæðingu dreifikerfis raforku verður flýtt um áratug samkvæmt tillögum átakshóps ríkisstjórnarinnar um úrbætur í innviðum sem kynntar voru í morgun. Hópurinn var skipaður í kjölfar fárviðrisins sem gekk yfir landið í desember síðastliðnum. Samkvæmt núverandi áætlunum lýkur jarðstrengjavæðingunni eftir 15 ár eða árið 2035. Lagt er til að verkið verði unnið þrefalt hraðar eða á fimm árum. Því verði þannig að mestu lokið 2025.

Þrífösun á að innleiða samhliða jarðstrengjavæðingunni. Áætlað er að jarðstrengjavæðingin muni fækka truflunum í dreifikerfinu um 85% og að þær verði að mestu óháðar veðri. Framkvæmdirnar lúta nær alfarið að dreifbýlishluta dreifikerfa RARIK og Orkubús Vestfjarða. Tillagan kallar á að ríkissjóður leggi fram flýtigjald, um 500-600 milljónir króna.

„Ávinningurinn af þessu er mikill, bæði hvað varðar aukið afhendingaröryggi og innleiðingu þrífösunar,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra orkumála í frétt á vef Stjórnarráðsins. „Ég hef þegar beitt mér fyrir hliðstæðri flýtingu framkvæmda á tveimur svæðum þar sem þörfin var óvenju brýn, í Skaftárhreppi og á Mýrum. Við eigum að halda áfram á þeirri braut.“

Tillögurnar og viðbótarupplýsingar má nálgast á vefnum innvidir2020.is. Tillögurnar verða til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda til loka mars.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga