Mynd: stjornarradid.is
Mynd: stjornarradid.is
Fréttir | 01. apríl 2020 - kl. 09:58
Miklar fjárfestingar til að vinna gegn samdrætti

Þverárfjallsvegur um Refasveit og Skagastrandarvegur um Laxá eru á meðal verkefna sem falla undir fjárfestingarátak stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Á þessu ári verða 6,5 milljarðar króna settir í samgöngumál, 550 milljónir í uppbyggingu fjarskiptakerfa og 300 milljónir til byggðamála til að sporna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldursins. Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu nýverið um tímabundið fjárfestingarátak stjórnvalda þar sem þetta var staðfest. Öll fjárfestingaframlögin bætast við önnur framlög í þessum málaflokkum á fjárlögum.

Markmið átaksins er að ráðast í arðbærar fjárfestingar og um leið auka eftirspurn eftir vinnuafli og örva landsframleiðslu á tímum samdráttar. Um er að ræða fjölbreyttar nýframkvæmdir í samgönguinnviðum sem undirbúningur er vel á veg kominn og hægt að ráðast í strax en einnig viðhaldsverkefni. Verkefnin eru um land allt og taka til allra samgöngugreina, þ.e. vega, flugvalla og hafna. Stærstur hluti fjárfestingarinnar er í vegakerfinu, nýframkvæmdir, breikkun einbreiðra brúa og gerð hringtorga auk viðhalds vega. Tillögurnar eru í góðu samræmi við þær áherslur sem hafa komið fram í umfjöllun umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um samgönguáætlun.

Þegar í ár verður 1.860 milljónum króna varið í vegaframkvæmdir og hönnun þeirra. Þverárfjallsvegur um Refasveit og Skagastrandarvegur um Laxá eru þar má meðal eins og áður sagði. Þá verður gert átak í að fækka einbreiðum brúm og ráðist verður í hafnarframkvæmdir um land allt og fjárfest í sjóvörnum á ýmsum stöðum vegna tjóns í óveðrum.

Framkvæmdir á flugvöllum
Áformað er að hefja framkvæmdir á fjórum flugvöllum á landsbyggðinni og efla einnig viðhald á öðrum flugvöllum og lendingarstöðum. Flugvellirnir eru á Ísafirði, Egilsstöðum, Akureyri og Þórshöfn. Stækkun flugstöðvar  á Akureyri, flughlað á Akureyri og akbraut á Egilsstaðaflugvelli eru stærstu verkefnin en einnig verður ráðist í framkvæmdir á Ísafjarðarflugvelli og Þórshafnarflugvelli. Framkvæmdir munu hefjast við stækkun flugstöðvar á Akureyri á þessu ári  svo hægt verði að afgreiða farþega í innanlands- og millilandaflugi samtímis. Þá verður flughlað einnig stækkað á Akureyrarflugvelli. Á Egilsstaðaflugvelli verður ráðist í framkvæmdir við nýja akbraut til að styrkja hlutverk flugvallarins sem varaflugvallar.

Blönduósflugvöllur er ekki nefndur sem sérstakt verkefni eins og fram kom í frétt Húnahornsins í gær. Samkvæmt heimildum Húnahornsins standa vonir þó til að hluti af fjármagni til framkvæmda á flugvöllum verði nýttur til að endurnýja ljósabúnað á Blönduósflugvelli.

Sjá nánar á vef Stjórnarráðsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga