Hrútey
Hrútey
Fréttir | 22. apríl 2020 - kl. 12:01
Mikil vonbrigði með úthlutun Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða

Sveitarstjórn Blönduósbæjar lýsir yfir miklum vonbrigðum með að hafa ekki fengið úthlutað úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, nú í annarri úthlutun sjóðsins á þessu ári. Þetta kemur fram í bókun sveitarstjórnar á fundi í gær. Á mánudaginn var tilkynnt um ráðstöfun á 200 milljóna króna viðbótarframlagi úr sjóðnum og fór ekki króna til verkefna á Norðurlandi vestra. Áður hafði byggðaráð bent á hróplegt ósamræmi milli landshluta í fyrri úthlutun sjóðsins, þar sem aðeins 34 milljónir fóru til verkefna á Norðurlandi vestra af rúmlega 500 milljónum.

„Mikil þörf er á skipulagðri uppbyggingu ferðamannastaða á svæðinu, og á Blönduósi hefur eitt verkefni fengið úthlutun á undanförnum árum, sem er Fólkvangurinn í Hrútey, en þar er aðeins lokið við fyrsta áfanga af þremur, og því mikilvægt að það verði unnið áfram, fyrir þá fjölmörgu ferðamenn sem fara um landshlutann,“ segir í bókun sveitarstjórnar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga