Fréttir | 22. apríl 2020 - kl. 14:34
Áhyggjur af mönnun starfa í sláturtíð í haust

Sláturleyfishafar hafa töluverðar áhyggjur af að erfiðlega geti gengið að manna sláturhúsin í landinu í haust af vönu starfsfólki. Stór hluti starfsmanna í hverri sláturtíð kemur frá útlöndum, í stórum stíl frá Póllandi og víðar. Sama fólk kemur gjarnan ár eftir ár í sömu sláturhúsin, vant fólk sem þekkir vel til verka og heldur afkostum uppi. Fjallað erum þetta í Bændablaðinu sem kom út í dag. Þar er m.a. rætt við Gunnhildi Þórmundsdóttur sem er sláturhússtjóri hjá SAH Afurðum á Blönduósi.

Gunnhildur segir að SAH Afurðir haldi sínu striki í undirbúningi sláturtíðar á þann veg að hún verði óbreytt, en að brugðist verði við ef þörf verði á því. „Við setjum dæmið upp þannig núna að litlar eða engar hömlur verði á því að erlent starfsfólk komi til starfa í sláturtíð á Íslandi í haust.“ Gunnhildur segir að allt að 140 manns starfi hjá fyrirtækinu í sláturtíð, um 95 manns bætist við þann 40-45 manna hóp sem þar starfar árið um kring. Bróðurpartur þess fólks er erlent vinnuafl, einkum frá Póllandi og eins í nokkrum mæli frá Bretlandi. Hún segir að flestir komi ár eftir ár og um sé að ræða vant fólk sem vel kunni til verka. Það geri að verkum að sláturtíð gangi snurðulaust fyrir sig alla jafna. Gunnhildur segir einnig að umsóknir um störf í sláturtíð í haust séu þegar farnar að berast.

Ágúst Andrésson, framkvæmdastjóri hjá kjötiðnaðarsviði Kaupfélags Skagfirðinga, segir í sömu frétt að vissuleg hafi menn áhyggjur af mönnun sláturhúsanna í haust. Um 75-80% af starfsfólki í sláturtíð hjá KS hefur verið erlent vinnuafl. Sjá nánar í nýútkomnu Bændablaði.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga