Fréttir | 22. apríl 2020 - kl. 15:25
Náttúruminjasafn Íslands velur Fjölnet

Náttúruminjasafn Íslands hefur samið við Fjölnet um að sjá um rekstur tölvukerfa safnsins en um er að ræða alrekstur ásamt tengdri notendaþjónustu og viðeigandi öryggisráðstöfunum. Náttúruminjasafnið er fræðslu- og vísindastofnun sem er ætlað að gegna miðlægu hlutverki við miðlun þekkingar og upplýsinga um náttúrufræðileg efni og vera ráðgefandi gagnvart öðrum söfnum landsins sem sýsla með náttúruna. Stofnunin byggir starfsemi sína á rannsóknum og gagnaöflun á eigin vegum og í samstarfi við aðra, miðlun þekkingar og upplýsinga með staf- og rafrænni útgáfu, ráðgjöf, fyrirlestrum og sýningarhaldi.

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður safnsins, segir í tilkynningu að stofnunin sé komin með með traustan samstarfsaðila. „Náttúruminjasafnið reiðir sig á að rekstur upplýsingatækniumhverfis safnsins sé hnökralaus. Það er afar mikilvægt fyrir okkur að hafa traustan og öruggan samstarfsaðila til að sjá um rekstur okkar umhverfis. Við erum mjög ánægð með samstarfið við Fjölnet og höfum fulla trú á því að sérfræðingar þeirra munu veita okkur framúrskarandi þjónustu.“

Sigurður Pálsson, framkvæmdarstjóri Fjölnets, segir fyrirtækið gríðarlega ánægt með samninginn. „Við þökkum fyrir það traust sem okkur er sýnt með rekstri og umsjón svo viðamikilla upplýsingakerfa sem Náttúruminjasafn Íslands þarf á að halda.“

Fjölnet er öflugt fyrirtæki sem hefur starfað í rúm 20 ár í upplýsingatækni og sérhæfir sig í hýsingu og rekstri tölvukerfa auk þess að bjóða upp á persónulega og örugga alhliða tölvuþjónustu, ráðgjöf og kennslu. Öll starfsemi Fjölnets er ISO27001 vottuð og er fyrirtækið með tvær starfstöðvar, Síðumúla 1 Reykjavík og Hesteyri Sauðárkróki.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga