Fréttir | 24. apríl 2020 - kl. 09:35
Útlitið dökkt í ferðaþjónustunni

Rekstrargrundvöllur margra fyrirtækja á Norðurlandi vestra er horfinn vegna kórónuveirufaraldursins þar sem ferðaþjónustan skipar stóran sess í rekstrinum. Þetta sagði Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, í viðtali í Ríkisútvarpinu í morgun.  Hún sagði annan aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar nokkur vonbrigði fyrir fyrirtæki á svæðinu. Samtökin hafa sjálf reynt að bregðast við með fjárframlagi.

„Það sem við höfum mestar áhyggjur af núna eru áhrifin á atvinnulífið. Okkar svæði er samsett af mörgum smærri fyrirtækjum en það eru fá stór. Útlitið versnar með hverjum deginum og það eru einhverjir sem eru að velta fyrir sér að loka og leggjast í híði,“ sagði Unnur og bætti við að ferðaþjónustan sé að fara verst út á svæðinu, eins og víða annars staðar. Söfn og setur á svæðinu hafi engan rekstrargrundvöll án ferðamanna og það smiti svo út frá sér í samfélagið.

„Flest allir sem við höfum heyrt í undanfarnar vikur eru að nýta sér hlutabótaleiðina og bundu vonir við aðgerðir sem kynntar voru fyrir nokkrum dögum, sem mörgum fannst nokkur vonbrigði. Það hefði þurft að vera mun skýrari stuðningur við ferðaþjónustuaðilana sem eru ekki bara að sjá einhverja skerðingu á sinni starfsemi heldur verði í mörgum tilvikum hreinlega að loka. Svo er óvissan sem er enn, að vita ekki hvernig flæði verður stýrt inn í landið á næstu mánuðum. En vonandi fer sú óvissa að verða út úr myndinni,“ sagði Unnur.

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra hafa sjálf reynt að bregðast við með fjárframlagi og leituðu eftir hugmyndum hvernig best megi nýta það til stuðnings og uppbyggingar á svæðinu. SSNV setti saman 50 milljón króna pott til þess að fara út í aðgerðir. Unnur sagði að sitt fólk væri að hringja í fólk og að símtölin væri löng. Hún upplifir það ekki þannig að fólk sé að bugast. „Þeir sem við höfum rætt við enda allir símtölin á því að við komumst í gegnum þetta. En eðlilega er þreyta í fólki eftir þennan erfiða vetur og þessar hörmungar sem hafa riðið yfir núna,“ sagði Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV, í Morgunþætti Ríkisútvarpsins í morgun.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga