Frá Hvammstanga
Frá Hvammstanga
Fréttir | 24. apríl 2020 - kl. 14:52
Byggðastofnun greini vanda sveitarfélaga

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur falið Byggðastofnun að greina vanda sem blasir við einstökum sveitarfélögum og svæðum sem tengist Covid-19 faraldrinum, m.a. vegna hruns ferðaþjónustunnar. Á vef Stjórnarráðsins segir að átaksverkefni atvinnuleysistryggingasjóðs og aðrar aðgerðir ríkisstjórnarinnar muni að einhverju leyti mæta þeim erfiðleikum, en greina þurfi frekar sértækar aðgerðir og áskoranir einstakra svæða.

Í frumvarpi til fjáraukalaga er lagt til að verja 25 milljónum króna í að þróa sviðsmyndalíkan, sem nýtast til að greina fjárhagslega sjálfbærni sveitarfélaga. Því verður ætlað að finna veikleika í búskap einstakra sveitarfélaga til að geta sett upp sviðsmyndir til að bregðast betur við þegar sambærilegar aðstæður koma upp.

Margvíslegar aðgerðir fyrir sveitarstjórnarstigið eru að finna í öðrum áfanga stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Meðal þeirra er að styðja við og liðka fyrir fjárfestingum sveitarfélaga og sértækur stuðningur við viðkvæm svæði. Þá á að veita 100 milljónum króna til stafrænnar þróunar á vegum sveitarfélaga til að bæta þjónustu og auka samskipti.

Sjá nánar í spurt og svarað um efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga