Fréttir | 29. apríl 2020 - kl. 21:24
Söngelskir Skagfirðingar

Skagfirðingar hafa tekið sig saman og gert tónlistarmyndband við lagið Látum sönginn hljóma eftir Geirmund Valtýsson og texta Hjálmars Jónssonar. Tónlistarmaðurinn Sigfús arnar Benediktsson óskaði eftir þátttakendum á Facebook og létu viðbrögðin ekki á sér standa. Hann segir í samtali við Ríkisútvarpið að hugmyndin hafi komið upp eftir Góða ferð myndbandið.

Sigfús Arnar bjó til hóp á Facebook og bauð öllum sem honum datt í hug að gætu viljað taka þátt. Hann segir viðbrögðin hafa komið mjög á óvart, hann hafi séð fyrir sér að fá kannski fimm sendingar. Hann fékk hins vegar 24 myndbönd send, frá fólki sem ýmist spilaði eða söng.

Hann segir aldrei að vita nema það verði skellt í annað lag enda sé Skagafjörður fullur af hæfileikaríkum tónlistarmönnum. Þetta hafi þó verið töluvert meiri vinna en hann átti von á. „Ég ætlaði að vera ægilega fljótur að þessu en svo var ekki.“

Sjá nánar á vef RÚV.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga