Fréttir | 02. maí 2020 - kl. 09:27
Hróplegt ósamræmi í úthlutun styrkja

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps brýnir stjórnvöld til þess að horfa til Norðurlands vestra varðandi framtíðarúthlutanir úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Eins og fram hefur komið í fréttum veitti sjóðurinn, sem er í vörslu Ferðamálastofu, nýverið styrki til 33 verkefna um land allt vegna ársins 2020 og nam heildarfjárhæðin rúmlega 500 milljónum króna. Einungis 34 milljónir runnu til verkefna á Norðurlandi vestra.

Tvö hundruð milljón króna aukaúthlutun úr sjóðnum fór fram á dögunum og fór ekki ein króna til verkefna á Norðurlandi vestra. Í bókun sveitarstjórnarfundar Húnavatnshrepps frá því á fimmtudaginn er bent á hróplegt ósamræmi í úthlutun sjóðsins. Sveitarstjórn lýsir jafnframt yfir vonbrigðum með að verkefni í landshlutanum hafi ekki fengið styrk í annarri úthlutun sjóðsins. „Það er ekki hægt að una við að landshlutanum sé haldið á ís þegar kemur að uppbyggingu ferðamannastaða,“ segir í bókun fundarins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga