Búrhvalstarfurinn í Kálfshamarsvík. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson.
Búrhvalstarfurinn í Kálfshamarsvík. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson.
Fréttir | 11. maí 2020 - kl. 09:13
Hvalreki í Kálfshamarsvík

Tæplega 14 metra langur búrhvalstarfur rak upp í fjöru í Kálfshamarsvík, líklega fljótlega eftir helgina 2.-3. maí, að því er fram kemur í frétt í Morgunblaðinu í dag. Rætt er við Dagnýju Rósu Úlfarsdóttur, oddvita Skagabyggðar og segir hún að ekki komi til greina að láta hræið rotna á þessum stað, né heldur að grafa það í stórgrýttri fjörunni, þess vegna þurfi að fjarlægja það sem fyrst.

Dagný segir að ekki verið þó gripið til aðgerða fyrr en svör hafi borist frá Umhverfisstofnun við nokkrum spurningum sem hún endi stofnuninni. Þá hugsar hún sér að fá björgunarsveitina strönd á Skagaströnd til að draga hræið út á rúmsjó á Húnabjörginni og sökkva hvalnum þarf.

Í Morgunblaðinu kemur fram að þegar fréttist af hvalrekanum hafi fólk streymt á staðinn til að skoða þessa risastóru skepnu þar sem hún liggur í fjörunni með sinn tunnulaga haus. Þeirra á meðal sé Bjarni Jónsson, forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra, en hann tók sýni úr hvalnum til greiningar og mældi dýrið í bak og fyrir.

Í mars síðastliðnum rak tæplega 13 metra búrhvalstarfur upp í fjöru við Blönduós. Það eru ungir búrhvalstarfar sem helst halda sig við Íslandsstrendur, en tarfarnir geta náð 15-20 m lengd fullvaxnir og orðið 45-57 tonn að þyngd. Kýrnar sem halda sig á öðrum slóðum ásamt kálfum, verða 11-13 m langar og geta orðið 20 tonn að þyngd.

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga