Ragnheiður Jóna. Ljósm: N4.is
Ragnheiður Jóna. Ljósm: N4.is
Fréttir | 24. júní 2020 - kl. 10:22
Skrifstofusetur á Hvammstanga

Skrifstofusetur opnar á næstu mánuðum á Hvammstanga gangi áætlanir eftir. Þar verður gert ráð fyrir aðstöðu fyrir frumkvöðla og einstaklinga sem þurfa vinnuaðstöðu til lengri eða skemmri tíma. Með setrinu er verið að undirbúa jarðveginn og leggja drög að fjölgun starfa í Húnaþingi vestra. Í þættinum Landsbyggðir sem sýndur er á N4 næstkomandi fimmtudagskvöld klukkan 20:30 verður rætt við Ragnheiði Jónu Ingimarsdóttur, sveitarstjóra Húnaþings vestra um skrifstofusetrið.

“Í gildandi byggðaáætlun er kveðið á um að tíu prósent allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra verði án staðsetningar eftir fjögur ár, þannig að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki. Eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Norðurlands vestra er einmitt að koma upp skrifstofusetrum og við erum sem sagt langt komin með að byggja upp fyrsta setrið á Hvammstanga, sem líklega tekur til starfa síðar á þessu ári,“ segir Ragnheiður Jóna og bindur hún miklar vonir við þetta fyrsta skrifstofusetur og vonar að þau verði fleiri í framtíðinni á Norðurlandi vestra.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga