Veitt í Blöndu
Veitt í Blöndu
Fréttir | 06. júlí 2020 - kl. 14:07
Laxveiði í Blöndu í hættu

Vatnssöfnun í Blöndulón hefur gengið sérlega vel á þessu ári og er nú svo komið að lónið er að fyllast. Það eru slæm tíðindi fyrir laxveiðina í Blöndu því þegar áin er komin á yfirfall verður hún óveiðanleg fyrir fluguveiði. Fjallað er um þetta í Sporðaköstum, veiðivef mbl.is. Þar er rætt við Sigurð Inga Guðmundsson, formann veiðifélagsins, sem segir þetta var kjaftshögg fyrir svæðið. Fram kemur að Landsvirkjun hafi verið í samskiptum við Veiðifélag Blöndu og Svartár vegna málsins og meti stöðuna.

Ef ekkert breytist í veðurfarinu næstu daga er líklegt að Blanda fari á yfirfall eftir nokkra daga eða í kringum 10.-12. júlí næstkomandi. Ef kólnar í veðri þá gæti yfirfallið frestast til 15.-18. júlí. Það skal tekið fram að oftast fer Blanda á yfirfall um og eftir Verslunarmannahelgina og stundum seinna.

„Þetta er mjög erfitt ofan í allt annað. Hér eru nýir leigutakar sem eru að byggja upp nýjan hóp viðskiptavina og við höfum breytt reglum og fjárfest í breytingum á veiðihúsi og farið alfarið í fluguveiði. Svo hefur Covid líka haft mikil áhrif,“ sagði Sigurður í samtali við Sporðaköst.

Fram kemur í fréttinni að fulltrúar veiðifélagsins hafi bent á að hægt væri að opna botnlokur á Blöndulóni og hleypa úr því. Þá myndi lækka í lóninu og yfirfallið frestast og hægt yrði að bjarga hluta sumars fyrir veiðimenn. Sigurður segir að Landsvirkjun hafi hafnað þessu og að það komi honum á óvart.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga