Skjáskot af Bautasteini
Skjáskot af Bautasteini
Fréttir | 11. júlí 2020 - kl. 08:05
Umfjöllun um framkvæmdir við kirkjugarðinn

Framkvæmdirnar við kirkjugarðinn á Blönduósi hafa hlotið verðskuldaða athygli. Í Bautasteini, blaði Kirkjugarðasambands Íslands, sem nýlega kom út er fjallað um viðhaldið og endurbæturnar sem fram fóru í fyrra. Umfjöllunin byggir á viðtali sem héraðsfréttablaðið Feykir tók við Valdimar Guðmannsson, formann stjórnar kirkjugarðsins.

Stærsta framkvæmdin fólst í endurbótum á kirkjugarðsveggnum en í honum er innfellt listaverk eftir Snorra Svein Friðriksson, myndlistarmann frá Sauðárkróki og er frá árinu 1973. Dr. Maggi Jónsson arkitekt hannaði sjálfan garðinn. Fram kemur í viðtalinu að viðgerð garðveggjarins hafi verið mun meiri en upphaflega var reiknað með.

Í framkvæmdunum síðustu misserin er búið að gera við kirkjugarðsvegginn, setja upp upplýsingaskilti, malbika bílaplanið og leggja göngustíga.

Geta má þess að framkvæmdir halda áfram við garðinn í sumar. Í síðasta mánuði kláruðu sjálfboðaliðar að leggja 60 metra langan göngustíg sem liggur í gegnum garðinn og múrviðgerðir á kirkjugarðsveggnum voru kláraðar. Næst á dagskrá er að byggja aðstöðuhús við garðinn.

Hér má sjá blaðið Bautastein.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga