Fréttir | 23. ágúst 2020 - kl. 22:15
Rótbustuðu Snæfell

Sannkölluð markaveisla var á Blönduósvelli í gær þegar sameiginlegt lið Kormáks og Hvatar tók á móti Snæfelli á Íslandsmótinu í knattspyrnu karla, 4. deild B riðli. Alls voru 14 mörk skoruð í leiknum sem fór 13-1 fyrir Kormáki/Hvöt. Þetta var annar leikurinn í röð sem Snæfell fær á sig 13 mörk. Eins og tölurnar gefa til kynna var leikurinn aldrei spennandi. Staðan í hálfleik var 5-0 fyrir heimamenn.

 Viktor Ingi Jónsson skoraði fjögur mörk í leiknum, Ingvi Rafn Ingvarsson þrjú, Ágúst Friðjónsson þrjú, Hilmar Þór Kárason tvö og Oliver James Kelaart Torres eitt.

Næstu þrír leikir Kormáks/Hvatar verða leiknir á útivöllum en liðið er sem stendur í öðru sæti B riðils með 19 stig, einu stigi á eftir toppliði KFR og eiga leik til góða. Liðið á góða möguleika á að komast í úrslitakeppni 4. deildar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga