Fréttir | 27. ágúst 2020 - kl. 15:22
Ábending send til sveitarfélaga um hlutverk og tilgang ungmennaráða

Embætti umboðsmanns barna hefur sent bréf til allra sveitarfélaga þar sem minnt er á hlutverk og tilgang ungmennaráða og sérstaklega mikilvægi þess að í ungmennaráðum sitji fulltrúar yngri en 18 ára. Í nýlegri rannsókn um ungmennaráð sveitarfélaga kemur fram að 44 af 51 ungmennaráðum í sveitarfélögum landsins hafa verið skipuð, að hluta til eða jafnvel að öllu leyti, ungu fólki sem er 18 ára eða eldra.

Í bréfinu segir að ákveðin hætta sé á að hagsmunir yngri hópsins fái minni vægi í ungmennaráðum sem hafi breiða aldurssamsetningu enda geti það reynst börnum erfitt að láta til sín taka í félagsstarfi með fullorðnu fólki þar sem til staðar er augljós aðstöðumunur sem felst í auknum þroska og lífsreynslu þeirra fullorðnu.

Samkvæmt æskulýðslögum frá árinu 2007 skulu sveitarstjórnir hlutast til um að stofnuð séu ungmennaráð, en markmiðið er að gefa ungmennum kost á því að vera virkir þátttakendur í lýðræðissamfélagi. Markmiðið með starfi ungmennaráða sveitarfélaga, er að gefa börnum sem ekki hafa kosningarétt og geta ekki gefið kost á sér til framboðs í sveitarstjórnarkosningum, tækifæri til þess að hafa áhrif á ákvarðanatöku í eigin nærsamfélagi og þar með eigið líf, umhverfi og framtíð.

Í bréfi umboðsmanns barna beinir hann þeim tilmælum til sveitarfélaga að líta til markmiðs æskulýðslaga og þess sem þar kemur fram um hlutverk og tilgang ungmennaráða. Þá skulu þau tryggja að í ungmennaráðum eigi eingöngu sæti fulltrúar ungmenna í sveitarfélaginu undir 18 ára aldri þannig að tryggt sé að sjónarmið barna fái vægi í töku ákvarðana og mótun stefnu í málefnum sem varða þau.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga