Fréttir | 30. ágúst 2020 - kl. 10:08
Óhefðbundin Skrapatungurétt í ár

Sauðfé verður rekið til réttar og dregið í dilka í Skrapatungurétt eftir viku eða sunnudaginn 6. september. Réttarstörfin verða með óhefðbundnu sniði í ár vegna kórónuveirufaraldursins. Sveitarstjórnir Blönduósbæjar og Skagabyggðar bera ábyrgð á framkvæmd réttarstarfa í Skrapatungurétt og ber þeim að tryggja að reglum um sóttvarnir sé fylgt eftir. Talið verður inn og út  og merkt við þá sem mæta í réttina, á fyrir fram útbúnum þátttakendalista.

Á vef Blönduósbæjar má finna fréttatilkynningu um göngur og réttarstörf í Blönduósbæ haustið 2020. Í henni segir m.a. að mikilvægt sé að allir viðhafi grundvallarsmitgát gagnvart öllu fólki, hvort sem það virðist vera veikt eða ekki. Almenna reglan sé að aðeins þeir sem hafa hlutverk mæti í göngur og réttir og er það vegna 100 manna hámarksreglu. Börn fædd 2005 eða síðar eru undanskilin fjöldatakmörkun.

Í ár verður almennum gestum ekki heimilt að koma í réttir. Gert er ráð fyrir að til rétta mæti einungis þeir sem eiga þar fjárvon eða eru kvaddir til aðstoðar af fjáreigendum. Þeir sem taka þátt í göngum og réttum skulu hlaða niður smitrakningarappi almannavarna.

Engin skipulögð dagskrá verður í tengslum við stóðsmölun á Laxárdal 19. september og stóðréttir í Skrapatungurétt 20. september eins og verið hefur. Ekki er gert ráð fyrir að aðrir en þeir sem eru við smalamennsku ríði Laxárdalinn eða komi upp að Kirkjuskarði 19. september næstkomandi.

Sjá nánari upplýsingar í fréttatilkynningu Blönduósbæjar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga