Fréttir | 30. ágúst 2020 - kl. 19:01
Náðu toppsætinu með sigri

Sameiginlegt lið Kormáks og Hvatar lék á móti Birninum í sudda rigningu á knattspyrnuvellinum við Egilshöll í dag þegar 13. umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu karla 4. deild B riðli var leikin. Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik en á 50. mínútu leiksins skoraði Ingvi Rafn Ingvarsson mark fyrir Kormák/Hvöt. Níu mínútum seinna jafnaði Björninn leikinn og allt stefndi í jafntefli.

En svo fór nú ekki því á 87. mínútu skoraði Hilmar Þór Kárason mikilvægt mark sem tryggði Kormáki/Hvöt öll stigin sem í boði voru og skaut liðinu á topp riðilsins í leiðinni. Vel gert.

Næsti leikur Kormáks/Hvata er á föstudaginn og fer hann fram á Eimskipsvellinum í Laugardalnum í Reykjavík, gegn SR sem er í þriðja sæti riðilsins.

Stöðuna í riðlinum má sjá hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga