Fréttir | 02. september 2020 - kl. 13:59
Bændur vilja ná fé sínu niður sem fyrst

Sauðfjárbændur í Húnavatnssýslum, sem eiga fé á hálendinu, leggja allt kapp á að ná fénu niður áður en óveðrið, sem spáð er, skellur á. Fram kom í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag að gangnamenn í Austur-Húnavatnssýslum eru í göngum á Haukagilsheiði og Grímstunguheiði en þeir smala alla leið upp undir Langjökul. Þeir voru í skála í morgun og þá var svartaþoka sem setur strik í reikninginn.

Vilja þeir, eins og aðrir sauðfjárbændur á Norðurlandi, ná fénu niður til að forðast það að lenda í vondu veðri og snjókomu en við þær aðstæður verður mun erfiðara að eiga við féð.

Í viðvörun Veðurstofunnar er spáð norðan eða norðvestan hvassviðri eða stormi og talsverðri úrkomu. Hiti verður nálægt frostmarki og annað kvöld gæti orðið slydda ofan 300 metra og snjókoma ofan 500 metra. Þá er líklegt að færð spillist á fjallvegum.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga