Fréttir | 10. september 2020 - kl. 14:23
Auglýsa lóðir án gatnagerðargjalda

Sveitarstjórn Skagastrandar ætlar að fella niður öll gatnagerðargjöld vegna bygginga á lóðum við götur í sveitarfélaginu sem eru nú þegar tilbúnar. Byggingalóðirnar verða auglýstar sérstaklega og þurfa umsóknir að berast fyrir áramót. Röð umsókna gildir varðandi afgreiðslu og úthlutun á einstaka lóðum.

Við úthlutun lóðanna gilda ákvæði um að byggingarframkvæmdir skuli vera hafnar innan árs frá úthlutun og að byggingar hafi hlotið fokheldisvottorð innan tveggja ára. Að öðrum kosti fellur niður ákvæði um afslátt gatnagerðargjalda, að því er segir í fundargerð sveitarstjórnar frá því í gær.

Lóðirnar sem um ræðir eru við Bogabraut (ein lóð), Suðurveg (þrjár), Sunnuveg (tvær), Ránarbraut (sex), Oddagötu (ein), Hólanesveg (ein), Skagaveg (tvær og ein parhúsalóð) og Bankastræti (ein).

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga