Fréttir | 10. september 2020 - kl. 15:44
Sæti í úrslitakeppninni tryggt

Sameiginlegt lið Kormáks og Hvatar er komið í úrslitakeppni 4. deildar í Íslandsmótinu í knattspyrnu karla. Það var staðfest í gærkvöldi þegar Skautafélag Reykjavíkur tapaði fyrir Álafossi. SR sem er í þriðja sæti B riðils getur þar með ekki náð Kormáki/Hvöt að stigum sem er í öðru sæti í riðlunum en tvö efstu liðin fara í úrslitakeppnina. KFR er í efsta sæti með 27 stig og hefur spilað alla sína leiki í riðlinum. Kormákur/Hvöt er í öðru sæti en getur með sigri á sunnudaginn komist á topp riðilsins.

Leikurinn á sunnudaginn fer fram á Blönduósvelli klukkan 16 og er gegn Stokkseyri sem er í fimmta sæti riðilsins.

Úrslitakeppnin hefst laugardaginn 19. september og er spilað heima og að heiman í útsláttarkeppni. Ef Kormákur/Hvöt endar í efsta sæti B riðils verður leikið við liðið sem verður í öðru sæti í C riðli og gæti andstæðingurinn orðið Knattspyrnufélagið Ásvellir (Hafnarfjörður) eða Ísbjörninn (Kópavogur). Ef Kormákur/Hvöt endar í öðru sæti í B riðli verður spilað við liðið sem endar í efsta sæti í A riðli sem gæti orðið KFS (Vestmannaeyjar) eða ÍH (Hafnarfjörður).

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga