Fréttir | 14. nóvember 2020 - kl. 10:05
Tóku þátt í norrænu rafíþróttamóti

Nýverið var haldið norrænt rafíþróttamót á netinu sem heitir Nordic E-Sport United og tóku félagsmiðstöðvar frá Íslandi og Danmörku þátt. Ein þeirra var félagsmiðstöðin Órion á Hvammstanga. Krakkarnir æfðu sig í nokkrar vikur á netinu fyrir mótið undir leiðsögn Jóhannesar G. Þorsteinssonar og Aðalsteins Grétar Guðmundssonar, en þeir hafa séð um Rafíþróttir í Húnaþingi sem er félag fyrir alla í Húnaþingi sem hafa áhuga á tölvuleikjaspilun.

Þar að auki var Aleksandar Milenkoski fenginn til að halda námskeið fyrir krakkana, en hann hefur meðal annars keppt í Counter-Strike: Global Offensive, betur þekktur sem CS:GO í íslensku rafíþróttadeildinni.

Sagt er frá þessu á vef Húnaþings vestra og þar kemur fram að Arnar Finnbogi Hauksson og Elvar Orri Sæmundsson úr Grunnskóla Húnaþings vestra hafi tekið þátt í tvíliðaleik í CS:GO í tvíliðaleik. Elvar þurfti því miður frá að hverfa í miðri keppni, og þá tók Sindri Þorvaldsson við af honum til loka keppninnar. Þeim þremur gekk nokkuð vel og enduðu á að lenda 2. sætinu í sínum flokki.

Þau sem hafa áhuga á rafíþróttum eða tölvuleikjum almennt er bent á Facebook síðu „Rafíþrótta í Húnaþingi“. Að lokum má þess geta að næsta á döfinni hjá félaginu er að halda „innanbæjarmót“ í Húnaþingi, en það verður auglýst betur þegar nær dregur.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga