Mynd: vegagerdin.is
Mynd: vegagerdin.is
Fréttir | 15. desember 2020 - kl. 14:50
Miklar hitasveiflur valda bikblæðingum
Vegagerðin hvetur fólk að fresta för sinni ef kostur er

Vegagerðin segir að bikblæðingar sem eru nú á þjóðvegi 1 frá Borgarfirði og norður í Skagafjörð séu tilkomnar vegna mikilla sveiflna í hitafari síðustu daga. Verði vegfarendur fyrir tjóni vegna þeirra, eða hafi orðið fyrir tjóni, sé best að fylla út tjónaskýrslu á vef Vegagerðarinnar. Þeir sem ekki hafa aðgang að rafrænum skilríkjum geta fyllt út eyðublað Vegagerðarinnar með lýsingu á atvikinu.

Jafnframt geta myndir og aðrar upplýsingar fylgt í viðhengi. Senda skal tilkynningu á netfangið tjon@vegagerdin.is. Þegar tjónstilkynning hefur verið móttekin fer fram mat á því hvort Vegagerðin beri ábyrgð á tjóninu. Búast má við að afgreiðsla mála geti tekið tvær til þrjár vikur.

Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að blæðingar séu alþjóðlega þekktar en miklar hitasveiflur á skömmum tíma, eins og oft einkenni íslenskt veðurfar geri bikblæðingar af þessu tagi algengari hér en víða annars staðar. Vegagerðin hefur farið yfir alla þá kafla sem um ræðir og fór aftur af stað strax í birtingu. Úrræðin eru fyrst og fremst þau að hreinsa burtu bik sem er á yfirborði og verður unnið að því í dag. Búið er að merkja þessa kafla sem um ræðir en til skoðunar er að takmarka leyfðan þunga ökutækja.

Sjá nánari í frétt á vef Vegagerðarinnar.

UPPFÆRT

Vegagerðin hvetur fólk sem á erindi á milli Borgarness og Akureyrar að fresta för ef kostur er og fylgjast með framvindunni á morgun og næstu daga. Sjá nánar hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga