Mynd: byggdastofnun.is
Mynd: byggdastofnun.is
Fréttir | 19. desember 2020 - kl. 17:09
Kortlagning á húsnæði fyrir störf án staðsetningar

Byggðastofnun hefur tekið saman upplýsingar um mögulegt húsnæði fyrir störf án staðsetningar. Upplýsingunum var safnað saman með aðstoð landshlutasamtaka sveitarfélaga og eru setta fram á korti sem má sjá hér. Á kortinu birtast 83 staðir þar sem hægt er að taka við fólki sem vinnur starf án staðsetningar. Á þessum 83 stöðum eru yfir 100 starfsstöðvar fyrir einstaklinga. Landsbyggðirnar eru því nú þegar vel í stakk búnar til að taka á móti þessum störfum á vegum ríkisins og stofnana þeirra.

Kortinu er ætlað að vera lifandi upplýsingabanki fyrir þá aðila sem hugsa sér að sinna opinberu starfi án staðsetningar og forstöðumenn ráðuneyta og stofnana. Inni á kortinu birtast ákveðnar grunnupplýsingar um viðkomandi staði ásamt tengilið sem hafa skal samband við ef áhugi er fyrir hendi. Kortið er unnið að beiðni samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og er ætlunin að uppfæra upplýsingarnar sem þar birtast eins og þörf krefur.

Samkvæmt kortinu eru tilgreindir fimm staðir í Húnavatnssýslum, á Hvammstanga, Húnavöllum, Skagaströnd og tveir á Blönduósi. Á Hvammstanga eru laus pláss fyrir 8-10 einstaklinga, á Húnavöllum fyrir 4-5, á Skagaströnd fyrir 7-14 og á Blönduósi 1-3.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga