Fréttir | 19. desember 2020 - kl. 17:35
Tillaga 20 sveitarfélaga felld

Á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í gær var lögð fram tillaga 20 sveitarfélaga um að lýsa yfir andstöðu við áform um að lágmarksfjöldi íbúa í sveitarfélagi yrði lögfestur. Tillagan fól einnig í sér hvatningu til eflingar sveitarstjórnarstigsins með sameiningum og stækkun sveitarfélaga. Tillagan var naumlega felld en alls greiddu 54 með tillögunni en 67 gegn henni.

Sveitarfélögin 20 sem lögðu fram tillöguna, þar á meðal Sveitarfélagið Skagaströnd og Skagabyggð, höfðu aðeins 19 atkvæði af 136 á þinginu en atkvæðaréttur fer eftir stærð sveitarfélaga.

Í ávarpi Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á landsþinginu í gær sagði hann að möguleiki væri á því að tillaga um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga yrði ekki flutt á Alþingi á næstunni. Skammt væri til kosninga og að enn hefði frumvarpið um þetta efni ekki verið tekið til efnislegrar umræðu á þingi. Erfitt væri að ljúka umræðum um umdeildari mál þegar stutt væri í kosningar. Þá væri oft auðvelt fyrir pólitíska tækifærissinna að reyna að nýta sér það til góðs og til eigin hagsbóta en verkefninu til tjóns. Sagðist Sigurður Ingi ekki taka þátt í því.

Tengd frétt:
Á móti hugmyndum um lögfestingu íbúalámarks

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga