Fréttir | 20. desember 2020 - kl. 15:20
Engin áramótabrenna á Blönduósi þessi áramót

Engin áramótabrenna verður á Blönduósi þessi áramótin en ákvörðun þess efnis var tekin í dag af umsjónaraðila brennunnar af vel athuguðu máli. Ástæðan er fyrst og fremst ástandið í samfélaginu útaf Covid-19. Erfitt hefði verið að passa upp á allar sóttvarnarreglur s.s. fjöldatakmarkanir og fjarlægð á milli fólks.

Flugeldasýning Björgunarfélagsins Blöndu verður hins vegar á sínum vanalega stað og er fólk hvatt til að nýta sér góða útsýnisstaði víðs vegar um bæinn eins og á kirkjuhólnum, planinu við Blönduskóla, uppi á Miðholti og við ÓB planið.

Björgunarfélagið hvetur alla til að virða vel allar sóttvarnir og sóttvarnarreglur og passa vel upp á næsta nágrenni.

Tímasetning flugeldasýningar verður auglýst síðar að sögn formanns félagsins.

Höf. ass

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga