Fréttir | 21. desember 2020 - kl. 15:53
Sveitarfélögin ekki samstíga um rekstur Brunavarna Austur-Húnvetninga

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps vill að hlutlaus aðili taki út rekstur og þörf á Brunavörnum Austur-Húnvetninga (BAH) í núverandi mynd og að þeirri úttekt verði lokið fyrir 15. febrúar næstkomandi. Á fundi stjórnar BAH 9. desember síðastliðinn var samþykkt fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 og nema framlög sveitarfélaganna tveggja sem standa að samlaginu samtals 52,6 milljónum króna.

Framlögin hafa hækkað undanfarin ár og er ástæðan sögð m.a. vera aukinn launakostnaður vegna aukinnar bakvaktaskyldu og kostnaður vegna kaupa á nýju húsnæði. Fulltrúi Húnavatnshrepps í stjórn BAH lét færa til bókar á fundinum mótmæli við því að enn væru BAH reknar með slíku framlagi án þess að fram hefði farið úttekt og stefnumótun fyrir brunavarnir á svæðinu. „Þegar slíkar upphæðir af almannafé eru settar í einn málaflokk er nauðsynlegt að staldra við og spyrja sjálfan sig og aðra hvert stefnum við,“ segir í bókun fulltrúans sem sat hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunarinnar. Á sveitarstjórnarfundi Húnavatnshrepps 17. desember síðastliðinn er tekið undir bókunina.

Fulltrúar Blönduósbæjar í stjórn BAH lýstu undrun sinni yfir bókuninni, þar sem fulltrúi Húnavatnshrepps hafi ekki komið með neinar tillögur eða athugasemdir í umræðunni um fjárhagsáætlunina og kjósi að leggja fram tilbúna bókun eftir að áætlunin hafi verið afgreidd. „Mikil uppbygging hefur verið í rekstri og umgjörð Brunavarna í Austur-Húnavatnssýslu, á síðustu árum, með fullri þátttöku og án nokkurra athugasemda frá fulltrúa Húnavatnshrepps, og vissulega hefur það ásamt hertum reglum um brunavarnir haft áhrif til hækkunar í rekstri Brunavarna í A-Hún.,“ segir í bókun fulltrúa Blönduósbæjar.

Sérstakur aukafundur verður haldin í stjórn BAH miðvikudaginn 6. janúar næstkomandi til þess að ræða efni bókunar fulltrúa Húnavatnshrepps og hvort tilefni sé til þess að bregðast við henni sérstaklega, mögulegan kostnað við úttekt og samstarfið um brunavarnir í Austur-Húnavatnssýslu.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga