Fréttir | 22. desember 2020 - kl. 14:13
Fjárhagsáætlun Húnavatnshrepps samþykkt

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps hefur samþykkt fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir næsta ár. Í henni er gert ráð fyrir rúmlega 19 milljón króna neikvæðri rekstrarniðurstöðu. Tekjur eru áætlaðar 524 milljónir og rekstrargjöld 500 milljónir. Afskriftir eru áætlaðar 25 milljónir og fjármagnsliðir eru áætlaðir neikvæðir um rúmar 18 milljónir.  

Fjárhagsáætlunin var rædd á fundi sveitarstjórnar 17. desember síðastliðin. Þar kom fram að við gerð hennar hafi verið lögð áhersla á aðhald í rekstri, líkt og undanfarin ár. Jafnframt sé verið að halda áfram að viðhalda eignum sveitarfélagsins. Auk hefðbundinna viðhaldsframkvæmda er nefnt að stefnt er að því að byrja á byggingu á nýjum gangnamannaskála á Grímstunguheiði og allt að 23 milljónir verða settar í viðhald rétta og girðinga. Þá verður áfram unnið að öðrum endurbótum skólahúsnæðis Húnavallaskóla og öðrum fasteignum sveitarfélagsins. Gert er ráð fyrir að sveitarfélagið taki lán á næsta ári fyrir allt að 85 milljónum króna til að standa undir viðhaldsframkvæmdum.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga