Fréttir | 05. janúar 2021 - kl. 12:54
Framtíðin björt ef íbúar standa saman

Alexandra Jóhannesdóttir, sveitarstjóri Skagastrandar, ritar áramótapistil á vef sveitarfélagsins. Hún segir að á síðasta ári hafi sveitarfélagið staðið frammi fyrir miklum tekjusamdrætti út af ýmsum ástæðum en að strax hafi verið tekin sú stefna að vernda lífsgæðin á staðnum. Áhersla hafi verið á að viðhalda allri þjónustu og að halda í störf. „Við erum stolt af því hversu vel hefur tekist til við það,“ segir Alexandra.

Hún segir að engin forskrift hafi verið til að því hvernig takast ætti á við heimsfaraldur og að tilkoma hans hafi ekki orðið til þess að létta á rekstri sveitarfélagins. Á sama tíma hafi öllum orðið ljóst að togaraútgerð, sem sett hafi svip sinn á bæjar- og atvinnulíf í mörg ár, hafi lagst af. „Þær sviptingar í atvinnulífinu sem við höfum gengið í gegnum hafa eðlilega haft djúpstæð áhrif á íbúa. Ég hef jafnvel heyrt því fleygt að við séum svolítið týnd og það er ekkert skrýtið að margir hugsi á þeim nótum. Nú er hins vegar tími til kominn að ná áttum á ný með því að styrkja innviðina og hefja uppbyggingarstarfið. Það verður meðal annars gert með því að byggja upp ferðaþjónustu og skapa okkur nýja ímynd. Sveitarfélagið hefur á liðnu ári hafið vinnu við hönnun á heitum laugum við Hólanes sem eiga eftir að stuðla að því að skapa okkur sérstöðu á Norðurlandi vestra innan Norðurstrandarleiðarinnar. Það er ástæða til þess að hlakka til slíkrar uppbyggingar.“

Í pistlinum segir Alexandra að sveitarfélagið hafi að undanförnu ráðist í ýmsar aðgerðir til að bæta lífsgæðin á Skagaströnd og nefnir hún umfangsmiðkið viðhald á eignum sveitarfélagsins, m.a. á Fellsborg og félagslegum íbúðum. Stærstu fjárfestingarnar og þær sem mest ber á hafi legið í malbikunarframkvæmdum og byggingu á nýrri smábátahöfn í samstarfi við Vegagerðina. „Eftir hvort tveggja verður ásýnd bæjarins og aðstaðan við smábátahöfnina til fyrirmyndar. Það á vel við, því nú er kominn tími til að gera smábátaútgerðinni hátt undir höfði, sem er ein af grunnstoðum atvinnuvegar á Skagaströnd,“ segir Alexandra.

Í lok pistilsins segir hún að gott sé að búa á Skagaströnd. Það sé t.d. ekki hægt að setja verðmiða á lífsgæðin sem felist í kyrrðinni og nálægðinni við náttúruna. Hún segir að framtíðin sé björt af íbúar standi saman og ráðist í verkefnin sem framundan eru af einhug.

Lesa má pistil Alexöndru hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga