Mynd: ssnv.is
Mynd: ssnv.is
Fréttir | 05. janúar 2021 - kl. 14:10
RHA leitar að viðmælendum um almenningssamgöngur

Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri leitar að viðmælendum sem stunda daglega vinnusókn innan Norðurlands vestra og gætu ef til vill nýtt sér almenningssamgöngur innan svæðisins væru þær fyrir hendi. Tekin verða viðtöl við lykilmanneskjur í Austur-Húnavatnssýslu, Skagafirði og Vestur-Húnavatnssýslu. Einnig er stefnt að því að framkvæma þrjú rýnihópaviðtöl með um það bil sex viðmælendum á hverju svæði.

Þetta kemur fram á vef Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Á síðasta ári gerðu SSNV og Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri með sér samstarfssamning um vinnu við skoðun á fýsileika þess að koma á fót almenningssamgöngum á vinnusóknarsvæðum á Norðurlandi vestra. Markmiðið með verkefninu er að komast að því hvort þörf sé á almenningssamgöngum í landshlutanum og þá hverjir myndu helst nýta sér þær, milli hvaða staða og hvernig mætti útfæra þær svo þær nýtist sem best.

Verkefnið er framkvæmt með stuðningi úr lið A-10 í byggðaáætlun – Almenningssamgöngur um land allt, en samtökin hlutu styrk til verkefnisins á dögunum. Gert er ráð fyrir að niðurstaða liggi fyrir í mars á næsta ári með fyrirvara um ófyrirsjáanlegar tafir vegna heimsfaraldurs eða annarra óviðráðanlega orsaka

Áhugasamir eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við kolfinna@ssnv.is.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga