Fréttir | 06. janúar 2021 - kl. 14:09
Kvartað til umboðsmanns Alþingis yfir ráðningu í starf sviðsstjóra hjá Húnaþingi vestra

Björn Líndal Traustason hefur kvartað til umboðsmanns Alþingis yfir ráðningu í starf sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs Húnaþings vestra, en ráðið var í starfið í lok júní í fyrra. Alls sóttu 13 um starfið og var Björn á meðal umsækjenda. Kvörtunin lýtur einkum að mati á umsækjendum, valdbærni byggðarráðs og málsmeðferð að öðru leyti við undirbúning ákvörðunar um ráðningu í starfið.

Stuttu eftir að byggðarráð Húnaþings vestra hafði tekið ákvörðun um ráðninguna kallaði lögmaður Björns eftir rökstuðningi fyrir henni. Í honum kom fram að fjórir umsækjendur hefðu verið boðaðir í viðtal að loknu mati á þeim 13 sem sóttu um starfið. Að loknum viðtölum hefði einn umsækjandi uppfyllt best hæfnisskilyrði. Í framhaldinu hefði byggðarráð boðað viðkomandi í annað viðtal og ákveðið svo ráðninguna á fundi sínum 29. júní síðastliðinn. Niðurstöður viðtala við umsækjendur voru kynntar sveitarstjórn.

Í ágúst í fyrra óskaði lögmaður Björns eftir að fá afhent öll gögn sem lágu til grundvallar ákvörðuninni um ráðninguna og í september var óskað eftir frekari gögnum. Sveitarstjóri Húnaþings vestra svaraði lögmanninum í öllum tilvikum í samráði við Intellecta, sem hafði umsjón með ráðningarferlinu.

Byggðarráð Húnaþings vestra hefur nú falið lögfræðingi sveitarfélagsins að svara umboðsmanni Alþingis.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga