Unnur Valborg. Ljósm: n4.is
Unnur Valborg. Ljósm: n4.is
Fréttir | 07. janúar 2021 - kl. 09:40
Þrjú stór mál sem þarf að ræða

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, segir í viðtali á vef N4 að þrjú stór mál þurfi að fá umræðu fyrir alþingiskosningarnar í haust. Það séu samgöngumál, umhverfismál og atvinnumál, með áherslu á nýsköpun. Hún segir þörf á stórauknum stuðningi af hálfu ríkisvaldsins til að styrkja átak sveitarfélaganna á starfssvæði samtakanna, svo sem á formi uppbyggingar innviða og ívilnana.

Unnur segir að samgöngumál hafi verið eitt af stærstu baráttumálum landshlutans undanfarin ár og verði það klárlega áfram. Landshlutinn hafi hæsta hlutfall malarvega á landinu og hafi um langa hríð verið sveltur af framkvæmdum. Hún segir að ástandið sé „ Árið 2019 var á vegum SSNV unnin samgöngu- og innviðaáætlun fyrir landshlutann þar sem verkefnum er forgangsraðað á landshlutann í heild og innan hvers sveitarfélags. Heimavinnan hefur því verið unnin og áherslur landshlutans skýrar – nú er komið að ráðamönnum að tryggja fjármagn svo ganga megi til framkvæmda.“

Atvinnumál og nýsköpun eru jafnframt eitt af mikilvægustu verkefnunum, segir Unnur. „Í því felst stuðningur við atvinnuuppbyggingu og nýsköpun á svæðinu til að stuðla að fjölgun íbúa og bættu atvinnustigi. Störfin verða að vera til staðar til þess að íbúafjölgun eigi sér stað. Þarna undir fellur m.a. fjölgun opinberra starfa og störf án staðsetningar. Líka stuðningur við að laða stærri fjárfestingaverkefni inn í landshlutann.“ Hún segir að á síðasta ári hafi verið ráðinn sérstakur starfsmaður til SSNV sem hafi það sem meginmarkmið en þörf sé á stórauknum stuðningi af hálfu ríkisvaldsins til að styrkja það átak sveitarfélaganna á starfssvæði samtakanna, svo sem á formi uppbyggingar innviða og ívilnana.

Aðspurð um umhverfismálin segir Unnur að á undanförnum árum hafi þau fengið mun meira vægi og að sífellt séu meiri kröfur gerðar til sveitarfélaga hvað þau varði, með tilheyrandi viðbótarkostnaði. Hún segir að mikilvægt sé að sveitarfélögin fái stuðning til að mæta þessum kröfum. „Þarna má t.d. nefna úrgangsmál sem eru mörgum sveitarfélögum krefjandi og kostnaðarsamt verkefni. Jafnframt snýr þetta að regluverki málaflokksins en oft eru settar reglugerðir sem ómögulegt er fyrir sveitarfélög að mæta miðað við innviði landsins. Markmið um kolefnishlutleysi vega einnig þungt en þeim tengjast verkefni orkuskipta, fullvinnslu og fullnýtingu afurða og fleira sem mikilvægt er að sveitarfélög fái stuðning við til að metnaðarfull markmið landsins alls náist,“ segir Unnur Valborg Hilmarsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra í viðtali á vef N4.is.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga