Bryndís Rut. Mynd: ÓAB/Feykir.is
Bryndís Rut. Mynd: ÓAB/Feykir.is
Fréttir | 07. janúar 2021 - kl. 10:42
Lesendur Feykis völdu Bryndísi Rut mann ársins 2020 á Norðurlandi vestra

Líkt og undanfarin ár stóð Feykir fyrir kjöri á manni ársins á Norðurlandi vestra. Blaðinu bárust sjö tilnefningar og gafst lesendum kostur á að velja milli þeirra. Á vef Feykis segir að þátttakan hafi verið góð og varð niðurstaðan sú að Bryndís Rut Haraldsdóttir í Varmahlíð hlaut flest atkvæðin í kosningunni.

Bryndís er fyrirliði kvennaliðs Tindastóls sem sigraði Lengjudeild kvenna með miklum glæsibrag í sumar. Þar fór Bryndís fyrir sínu liði í hjarta varnarinnar sem fékk aðeins á sig sjö mörk í 17 leikjum. Í tilnefningu sem blaðinu barst segir meðal annars að Bryndís Rut hafi verið jákvæð og hugrökk, stjórnað sínu liði með góðu fordæmi og talanda og vart stigið feilspor á vellinum. „Hún er fyrsti fyrirliði knattspyrnuliðs í sögu Tindastóls sem leiðir lið sitt upp í efstu deild.“

Bryndís er tæplega 26 ára Skagfirðingur, uppalin í Brautarholti í Skagafirði, yngst sex barna þeirra Ragnheiðar Gísladóttur Kolbeins og Svavars Haraldar Stefánssonar. Nú býr Bryndís í Varmahlíð ásamt kærasta sínum, Alex Má Sigurbjörnssyni og starfar hálfan daginn í þjónustumiðstöð áhaldahúss sveitarfélagsins en þjálfar einnig yngri flokka í fótboltanum.

Sjá nánari umfjöllun á vef Feykis.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga