Fréttir | 15. janúar 2021 - kl. 11:11
Nýrri grænbók stjórnvalda um byggðamál fagnað

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar fagnar nýrri grænbók stjórnvalda um byggðamál. Meginmarkmið hennar er að byggðir og sveitarfélög um land allt verði sjálfbær og að þjónusta samgöngu- og fjarskiptakerfa mæti þörfum samfélagsins. Áherslur og leiðir eru einnig brýnar, þ.e. að jafna aðgengi að þjónustu, jafna tækifæri til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um land allt.

„Um er að ræða afar brýnan málaflokk sem snertir ákaflega marga þætti innviða landsins alls,“ segir í fundargerð byggðarráðs frá því á miðvikudaginn en þar var lagður fram tölvupóstur frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu um grænbókina og óskað eftir samráði.  

Í fundargerðinni segir:

„Byggðarráð leggur áherslu á hversu gríðarlega mikilvægt það er að styrkja mikilvæga innviði landsins, s.s. aðgang að góðri og öruggri heilbrigðisþjónustu og hjúkrunarrýmum, tækifæri til fjölbreyttrar menntunar, tengingu heimila og atvinnulífs við öruggt raforkukerfi sem mismunar ekki íbúum landsins hvað gjaldskrár varðar, eflingu og stækkun dreifisvæðis hitaveitna, og stuðning við nýsköpun og sprotastarfsemi, svo fátt eitt sé nefnt. Allt þetta stuðlar að styrkingu byggða og atvinnulífs um land allt.

Í dag búa um 64% Íslendinga á höfuðborgarsvæðinu en sambærilegt hlutfall í nágrannalöndum okkar er 20-36%. Eðlilegt er því að stjórnvöld beiti sér fyrir jafnari búsetuskilyrðum um land allt og að fólk hafi val um að búa á þeim stað sem það kýs, án þess að það bitni á aðgengi að grunninnviðum sem hvert samfélag á að búa við. Byggðarráð hvetur stjórnvöld til dáða við að framfylgja og innleiða markmið og áherslur grænbókarinnar sem allra fyrst.“

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga