Fréttir | 17. janúar 2021 - kl. 15:19
Áfangastaðaáætlun Norðurlands gefin út í annað sinn

Áfangastaðaáætlun fyrir Norðurland, sem gildir árin 2021-2023 hefur nú verið gefin út. Hún er unnin af Markaðsstofu Norðurlands í samstarfi við Ferðamálastofu og nær yfir allt starfssvæði Markaðsstofu Norðurlands, frá Hrútafirði yfir á Bakkafjörð. Á svæðinu eru 20 sveitarfélög og tvö landshlutasamtök, Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) og Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE).

Um 300 ferðaþjónustufyrirtæki eru í samstarfi við Markaðsstofu Norðurlands og eru í gildi þjónustusamningar við SSNV og sveitarfélögin á Norðurlandi eystra. Fyrsta áfangastaðaáætlunin sem gefin var út árið 2018 var samkvæmt forskrift Ferðamálastofu og unnin á sambærilegan hátt fyrir allan landshluta. Sagt er frá þessu á vef Markaðsstofu Norðurlands og má sjá áætlunina hér.

Áfangastaðaáætlun 2021-2023
Á vef Markaðsstofu Norðurlands segir að áætluninni sé ætlað að gefa skýra mynd af ferðaþjónustunni, markmiðum hennar og uppbyggingarþörf ásamt því að leggja áherslu á þarfir og væntingar ferðamanna í öllum verkefnum. Áfangastaðaáætlun geti því nýst hagsmunaaðilum innan svæðis en ekki síður aðilum utan svæðis enda fái stjórnvöld hér skýra mynd af starfsemi ferðaþjónustunnar á Norðurlandi og áherslum og verkefnum Markaðsstofu Norðurlands næstu þrjú árin. Í áætluninni er sérstaklega farið yfir þarfir í innviðauppbyggingu „enda eru þau verkefni gríðarlega mikilvæg fyrir sjálfbæra þróun ferðaþjónustunnar og eru þau verkefni skilgreind í samstarfi við sveitarfélögin og ferðaþjónustuna.“

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga