Fréttir | 18. janúar 2021 - kl. 11:48
Almenn ánægja með fyrirkomulag rjúpnaveiða í Húnaþingi vestra

Veiðieftirlitsmaður Húnaþings vestra fór sjö ferðir til að hafa eftirlit með rjúpnaveiði í sveitarfélaginu síðasta haust og gekk eftirlitið almennt vel. Í fleiri tilvikum fór veiðieftirlitsmaðurinn á Víðidalstunguheiði og fylgdist með veiðimönnum í þjóðlendunni. Allir fylgdu fyrirmælum og almennt virðist vera ánægja með fyrirkomulag veiðanna, stjórn og vöktun sveitarfélagsins á svæðinu, að því er fram kemur í fundargerð landbúnaðarráðs Húnaþings vestra frá 13. janúar síðastliðnum.

Á fundinn var einnig lögð fram skýrsla búfjáreftirlitsmanns fyrir árið 2020 og komu 39 mál inn á borð hans. Þar af voru 18 mál þar sem sinna þurfti fé á þjóðvegi 1 og 21 mál vegna hrossa. Í skýrslunni kemur fram að girðingar hafi farið illa vegna snjóþungs veturs 2019/2020.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga