Fréttir | 20. janúar 2021 - kl. 09:46
Akstursstyrkir og frístundakort í Húnaþingi vestra

Á vef Húnaþings vestra er vakin athygli á akstursstyrkjum vegna leikskólabarna og frístunda- og tónlistarnáms. Sveitarfélagið greiðir einnig út styrki til íþrótta- og tómstundaiðkunar barna frá tekjulágum heimilum í Húnaþingi vestra. Þá hafa verið gefin út frístundakort vegna ársins 2021 fyrir börn á aldrinum 6-18 ára sem lögheimili eiga í sveitarfélaginu.

Foreldrar og forráðamenn þurfa að sækja kortin á skrifstofu Húnaþings vestra að Hvammstangabraut 5 á Hvammstanga og kvitta fyrir móttöku þeirra. Þeir sem vilja nýta kortið sem innborgun á tónlistarskólagjöld geta sent tölvupóst þess efnis á netfangið: skrifstofa@hunathing.is. Frístundakortin renna út 31. desember ár hvert og því er æskilegt að búið sé að ráðstafa frístundakortunum fyrir 15. desember 2021. Sjá nánar hér.

Akstursstyrkir vegna leikskólabarna
Umsóknum um styrki vegna aksturs barna til vistunar í leikskóla tímabilið júlí - desember árið 2020, ber að skila á skrifstofu Húnaþings vestra á Hvammstangabraut 5 á Hvammstanga. Sækja þarf um á þar til gerðum eyðublöðum sem fást á skrifstofu sveitarfélagsins, einnig er hægt að nálgast þau á heimasíðunni www.hunathing.is undir liðnum eyðublöð. Með umsókninni þarf að fylgja með staðfesting leikskólastjóra. Reglur um akstursstyrki eru á heimasíðunni www.hunathing.is undir liðnum reglugerðir og samþykktir. Nánari upplýsingar veitir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs í síma 455-2400. Sækja þarf um styrkinn innan tveggja mánaða frá birtingu auglýsingar annars fellur hann niður.

Sérstakur styrkur til íþrótta- og tómstundastarfs barna
Húnaþing vestra greiðir út styrki til íþrótta- og tómstundaiðkunar barna frá tekjulágum heimilum í Húnaþingi vestra. Styrkurinn, sem kemur frá félagsmálaráðuneytinu er að hámarki 45.000 krónur fyrir hvert barn og er sótt um styrkinn á vef Ísland.is. Foreldrar eða forsjáraðilar þurfa að skrá sig inn á Ísland.is með rafrænum skilríkjum og þar kemur í ljós hvort heimilið uppfyllir skilyrði fyrir styrk.

Styrkurinn er veittur vegna barna sem eru fædd á árunum 2005–2014 og búa á heimilum þar sem heildartekjur framfærenda, einstaklings, hjóna eða sambúðarfólks, voru að meðaltali lægri en 740.000 kr. á mánuði á tímabilinu mars–júlí 2020. Umsóknir skulu berast fyrir 1.mars 2021 og skal umsóknum skilað á skrifstofu Húnaþings vestra, með þeim skulu fylgja gögn um kostnað umsækjanda við íþrótta- og tómstundastarf barnsins á árinu 2020-2021. Sjá nánar hér.

Akstursstyrkir vegna frístunda- og tónlistarnáms
Umsóknum um styrki vegna aksturs barna/unglinga á íþróttaæfingar og í tónlistarskóla árið 2020, ber að skila á skrifstofu Húnaþings vestra, Hvammstangabraut 5 á Hvammstanga sem fyrst. Sækja þarf um á þar til gerðum eyðublöðum sem fást á skrifstofu sveitarfélagsins, einnig er hægt að nálgast þau á heimasíðunni www.hunathing.is undir liðnum eyðublöð. Með umsókninni þarf að fylgja með staðfesting um ástundun.  Reglur um akstursstyrki eru á heimasíðunni www.hunathing.is undir liðnum reglugerðir og samþykktir. Nánari upplýsingar veitir skrifstofustjóri í síma 455-2400. Sækja þarf um styrkinn innan tveggja mánaða frá birtingu auglýsingar annars fellur hann niður.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga