Mynd: hunathing.is
Mynd: hunathing.is
Fréttir | 03. febrúar 2021 - kl. 14:31
Kvartað undan útblæstri frá ökutækjum

Nokkuð hefur borið á kvörtunum vegna ökutækja sem skilin eru eftir í gangi við stofnanir og aðra staði í Húnaþingi vestra, að því er segir á vef sveitarfélagsins. Biðlað er til ökumanna að virða rétt fólks til að anda að sér heilnæmu lofti og menga ekki andrúmsloftið að óþörfu. Á það sérstaklega við um þjónustustofnanir, skóla og verslanir. Þá eru íbúar hvattir til að kynna sér lögreglusamþykkt sem gefin var út í maí 2019 fyrir sveitarfélögin í umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra.

Í 23. grein hennar segir: „Vélar kyrrstæðra bifreiða og vinnuvéla sem ekki eru í notkun er óheimilt að hafa í gangi eða skilja eftir í gangi lengur er nauðsynlegt er, svo komast megi hjá mengun og hávaða á almannafæri og annars staðar þar sem ætla má að slíkt valdi óþægindum.“

Á vef Húnaþings vestra segir einnig: „Ökutæki í lausagangi losar mikið magn af loftmengandi efnum sem geta verið heilsuspillandi. Að anda að sér mikilli loftmengun getur valdið fólki töluverðum óþægindum svo sem ertingu í öndunarfærum og augum.“

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga